top of page

Valdís Þórðardóttir

Er íslenskt vatn betra en vatn annars staðar í heiminum?

 

Ég fór að hugsa um daginn hvort íslenskt vatn væri virkilega betra heldur en annað vatn. Nú erum við fjölskyldan búin að dvelja í Flórida í rúmlega þrjár vikur og ég hef smakkað margar vatnstegundir. Það segir kannski eitthvað að allt vatn sem við drekkum hér sé úr flöskum en það er einfaldlega vegna þess að okkur finnst vatnið sem kemur úr krönunum vont. Það er ofboðslega mikið klórbragð af þessu kranavatni, og það er ekki bara hér, heldur hef ég ferðast mikið og svona er þetta eiginlega alls staðar. Kannski er málið bara að venjast vatninu í krönunum í hverju landi fyrir sig. Þegar ég ferðaðist til Malasíu og Tælands var okkur nánast bannað að drekka vatnið, því við áttum að verða veik af því, svo þekkjum við Íslending sem býr þar og drekkur vatnið með glöðu geði. Staðirnir sem ég hef fengið ágætis kranavatn eru Svíþjóð og Noregur. Það gæti verið vegna þess að Svíar og Norðmenn gera eins og við Íslendingar, bora eftir vatni. Vatn sem við borum eftir hefur mjög líklega komið úr einum af rigningarhringunum sem voru fyrir 1000 árum. Í sumum ef ekki flestum löndum er vatnið eimað og stundum settur klór ofan í vatnið til að drepa bakteríur og svo er það síað. Vatnið á Íslandi á að vera svo hreint að ekkert þurfi að gera við það.

Mér finnst misjafnt hvort túristar trúi því sem sagt er um íslenska vatnið, að það sé hreinasta vatnið í heimi. Ég vinn þar sem margir túristar koma og um 60% fá sér vatnið sem er í boði í könnum og hin 40% kaupa sér nánast nákvæmlega sama vatnið. Þessi 40% eru mjög líklegast hrædd um að þola vatnið okkar ekki eins og við erum hrædd við þeirra.

Ég trúi því að íslenskt vatn sé best ef það er borað eftir því, jarðvegurinn er minna mengaður en annars staðar á jörðinni og spillir því ekki vatninu. Á Íslandi er hægt að fá eitt besta vatn í heimi en það þýðir samt ekkert endilega að það sé besta vatn í heimi.

 

bottom of page