top of page

Rannveig Klara Guðmundsdóttir

Of stuttir íþróttatímar í Sæmundarskóla

 

Íþróttatími eru skemmtilegar 40 mínútur þar sem við nemendur fáum okkar langþráðu útrás. Íþróttir hjálpa okkur að tjá keppnisskapið okkar á heilbrigðan og öruggan hátt. Íþróttir eru einnig sérlega góðar fyrir andlega, jafnt sem líkamlega heilsu okkar. Allar kennslustundir okkar hér í Sæmundarskóla eru klukkustund nema íþróttatímarnir sem eru bara 40 mínútur. Við fáum sem sagt tvo 40 mínútna íþróttatíma  á viku. Það finnst mér alls ekki nógu gott, 80 mínútur af hreyfingu á viku er ekki nóg fyrir unglinga sem eru ennþá að stækka. Íþróttatímarnir ættu að vera lengri og vera oftar í viku svo nemendur geti fengið þá hreyfingu sem þeir þarfnast.

 

Þessar 40 mínútur eru einnig sérstaklega mikilvægar fyrir þá sem geta ekki setið kyrrir á rassinum og hlustað á kennarana tala um hversu mikilvæg algebra er fyrir framtíðina. Gallinn við íþróttatímana er sá að þeir líða allt of fljótt enda eru þeir bara 40 mínútur. Unglingar nú til dags eru orðnir meira háðir tækninni og eru viljugri að sitja inni í myrkri að spila tölvuleiki sem ganga út á að myrða fólk heldur en að fara út í fótbolta eða bara hreyfa sig. Embætti landlæknis segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag en við fáum bara 40 mínútur í íþróttatíma. Það eru ekki allir sem hafa möguleika eða hafa einhvern áhuga á að æfa íþróttir fyrir utan skóla og sitja frekar heima að horfa á tölvuskjái og fá því ekki hreyfinguna sem þeir þurfa og því eru þessir íþróttatímar eiginlega eina almennilega hreyfingin sem þeir fá.

 

Vegna þess hve stuttir íþróttatímarnir eru fer stundum mikill tími í að koma öllum úr klefunum eða að bíða eftir þögn og þá hverfa frá okkur þessar mikilvægu mínútur sem við notum í hreyfingu . Við fáum bara 5 mínútur á milli kennslustunda, þannig við höfum 5 mínútur til að koma okkur í klefana, fara í íþróttaföt og koma okkur inní íþróttasal. Ekki allir ná að gera allt þetta á þessum stutta tíma og koma því seint inní íþróttasal og fá því ekki einu sinni 40 mínútur í hreyfingu heldur kannski 30 mínútur sem er ekki nóg. Svo við fáum ekki nema tvo 30 mínútna tíma sem jafngilda þá klukkutíma af hreyfingu á viku þegar við ættum að fá klukkutíma af hreyfingu á dag. Þessir íþróttatímar eru staðurinn þar sem við fáum góða útrás eftir að hafa hlaupið fram og til baka um íþróttasalinn sem er algjörlega nauðsynlegt sérstaklega fyrir eldri nemendurna þar seim þeir eru komnir í frekar þungt námsefni sem krefst mikillar hugsunar. Það er vísindalega sannað að hreyfing er gott vopn gegn stressi þar sem hreyfing hjálpar heilanum að búa til endorfín sem ég kýs að kalla hamingjuefnið í líkamanum okkar. Svo ef við fengjum 3 íþróttatíma á viku klukkustund í senn þá eru miklar líkur á því að stress og kvíði nemenda myndu minnka.


Lengri íþróttatímar skapa því glaða nemendur sem vilja frekar hlusta á kennarana tala um algebru og málfræðireglur í stað þess að hunsa þá alveg á meðan þeir hugsa um hvað þeir gætu fengið sér að borða eftir skóla. Of stuttir íþróttatímar gætu aftur á móti  mótað  stressaða og pirraða nemendur sem hafa hvorki þolinmæðina né kraftinn sem þarf til að geta einbeitt sér alveg að náminu. Ég veit að nemendur myndu hafa meiri þolinmæði til að hlusta á kennarana ef þeir fengju að hreyfa sig oftar í viku. Ein klukkustund af hreyfingu á dag kemur skapinu í lag!

bottom of page