top of page

Helga Rún Guðmundsdóttir

Eru frægu fyrirmyndirnar fyrirmyndafólk?

 

Flest öll höfum við einhverja fyrirmynd. Fyrirmyndir geta verið mjög mismunandi, þær geta verið alveg frá stjörnunum úti í heimi til foreldra okkar. Það er hvetjandi og hollt að hafa fyrirmynd, en það gæti verið varasamt að hafa fyrirmynd sem er óraunhæf. Óraunhæfar fyrirmyndir eru t.d stjörnur sem gera allt fyrir frægðina. Þær sem gera allt til þess að lifa hinu „fullkomna lífi” og eru bara frægar fyrir að vera frægar. Það skrítna er að við tökum þær stundum til fyrirmyndar. Af hverju erum við að því? Eru þær í alvöru það sem við viljum  vera að eltast við?

 

Það eru að sjálfsögðu til góðar fyrirmyndir í stjörnuheiminum í dag, og því ber að fagna. Sumar nýta sér frægðina til þess að berjast fyrir jafnréttindum og fleiri mikilvægum málefnum. En það sorglega við það er hvað það eru fáir sem hugsa um að styrkja góð málefni, hreinlega vera góðar manneskjur og koma fram við aðra af virðingu. Sumar stjörnur gera eitthvað einungis til þess að fá enn meiri athygli og halda sér í umræðunni.

 

Ef ég hugsa aðeins út í það, eru þau svona í raun? Eða eru þau bara „feik”? Hver er manneskjan á bak við ímyndina? Langar þeim að vera svona eða eru þau bara hrædd um að ímyndin verði að engu og að þau muni hverfa? Að enginn muni muna eftir þeim.

 

Það er svo brenglað hvað við aðhyllumst sumar stjörnur mikið. Oftast reynir maður að líkjast fyrirmynd sinni, svo sem að líkjast klæðnaði eða hegðun þeirra sem maður lítur upp til. En munum við einhvern tímann verða eins og stjörnurnar? Er eðlilegt að 18 ára ungmenni í íslensku samfélagi séu með manneskju í vinnu við að greiða hárið sitt og farða sig daglega?

 

Venjulegar manneskjur geta alveg eins verið betri fyrirmyndir en stjörnurnar. Það að vera góð manneskja finnst mér vera mikilvægara en að vera með stór sílikonbrjóst og bótoxvarir.

 

Það eru vissulega til góðar fyrirmyndir í samfélaginu í dag en stundum eru sumar bara ekki til fyrirmyndar og ekki þess verðar að vera fyrirmyndir annara.

 

Mér finnst að við séum of mikið að eltast við aðra. Af hverju hlustum við ekki bara á okkur sjálf? Hugsum sjálfstætt. Verum okkar eigin fyrirmynd.

bottom of page