top of page

Heimir Snær Vilhjálmsson

Strákar og samkvæmisdans

 

Ég er 13 ára og ég hef æft samkvæmisdansa í fjögur ár. Ég byrjaði því að mér fannst boltaíþróttir ekki skemmtilegar og langaði að finna íþrótt. Mamma mín var í dansi og fjölskyldan mín hefur verið í alls konar dansíþróttum og mig langaði til að prófa það.

 

Fyrst fór ég upp í skóla sem ég ætlaði ekki að byrja í til að sjá þetta og þá fannst mér þetta líta út dálítið heimskulega og var svolítið stressaður. Svo beið ég í svona eina viku og fór í annan dansskóla og þá ákvað ég að byrja þar því ég fékk dömu. Þá ákvað ég að byrja með frænda mínum því hann vildi líka fara í dans. Foreldrar dömunnar minnar vildu svo hætta og þá fór ég í annan dansskóla og þar fann ég aðra dömu og þá fann ég sjálfur mikla gleði og skemmtun. Ég fór í dans og þá fór allt stress.

 

Mig langar til að hvetja stráka til að prófa að æfa samkvæmisdansa. Það er mjög skemmtilegt og holl hreyfing. Öll hreyfing er holl til að styrkja líkamann. Ef þú ert strákur og langar til að prufa dans þá þarftu ekki að hafa miklar áhyggjur því það er auðvelt að finna dömu því maður þarf alltaf hvort sem er að fara í gegnum að skipta um dömu og finna þá réttu.

 

Dans er ekki létt æfing eins og margir halda. Dans er mjög erfið íþrótt. Þú þarft að vera sterkur og þarft að vera snöggur og þarft að geta hreyft líkamann mjög vel og snúið upp á hann og þess vegna er þetta góð æfing. Dans er ekki ódýr íþrótt heldur frekar dýr því öll keppnisföt og skór kosta meira þegar maður er kominn í hærri flokka. Ef þú ert í ljótum fötum er ólíklegt að einhver sé að horfa á þig. Maður getur samt keypt notuð föt en þarf þá stundum að breyta þeim svo þau passi.

 

Keppnum er skipt eftir aldri og hversu góður maður er og hversu marga dansa maður dansar. Það er hægt að dansa 10 dansa en maður getur líka dansað 6 dansa. Keppnir eru alltaf um helgar, stundum tvo daga en stundum bara einn. Það er gott að fólk komist alltaf að horfa á mann þegar þetta er um helgar.

 

Keppnirnar eru það skemmtilegasta. Þá færðu fín spariföt sem þú geymir rosalega vel, ferð inn á gólfið og upplifir mikið. Maður upplifir skemmtun, erfiðleika því maður vill alltaf vinna þó það sé erfitt, en maður getur alltaf æft og æft. Stundum er pirrandi að lenda í síðasta sæti. Stundum kemst maður ekki í úrslit og það getur verið rosalega pirrandi en þá veit maður að maður þarf að æfa og æfa meira.

 

Þó þessi íþrótt hljómi eins og hún sé mjög heimskuleg fyrir stráka þá hvet ég þá til að prófa því ég get lofað ykkur að ef þið hafið enga íþrótt til að æfa þá þurfið þið bara rétt að prófa og ég get lofað ykkur að þetta er rosalega skemmtilegt. Ég hvet alla stráka til að prófa að æfa samkvæmisdansa.

bottom of page