top of page

Rakel Eir Magnúsdóttir

Að hata

 

Margir nota orðið hata en hata þessir einstaklingar virkilega?

 

Segjum að tveir einstaklingar A og B kynnast í félagsstarfi. Þeir vinna saman að ýmsum verkefnum en hafa mjög ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að leysa hin ýmsu mál. Milli þeirra verður ágreiningur og tíðir árekstrar af ólíku tagi og samskipti þeirra þróast á slæman veg. Einn daginn getur A ekki hamið sig og segir með áherslu: „Ég HATA B!”

 

Hatur er gríðarlega stórt orð, íslensk orðabók skilgreinir hatur sem grimmt, fjandsamlegt hugarfar í garð einhvers. Þótt þú gjörsamlega þolir ekki einhvern þýðir það ekki að þú hatir hann, mér var alltaf sagt að ef þú vilt manneskju dauða þá hatar þú hana. Það að þér finnist einhver leiðinlegur og hugsanlega ljótur er það alls ekki ástæða til þess að hata viðkomandi.

 

Vissulega hefur hatur misst merkingu sína þegar orðið er svona ofnotað af börnum, unglingum og fullorðnu fólki, án þess að leiða hugann að því hvað hatur raunverulega þýðir eða afleiðingarnar á notkun orðsins.

 

Raunverulegt hatur birtist okkur frekar þegar við horfum á heimsfréttirnar. Stríð, þar sem fólk er svo blindað af hatri að því er sama hver fórnarlömbin eru. Í okkar samfélagi erum við svo heppin að við erum frekar umburðarlynd og þekkjum fá dæmi um gegnsýrandi hatur hérna næst okkur. Við ættum að staldra við og nota réttu orðin.

 

Reynum frekar að nota orð sem lýsa raunverulega tilfinningum okkar og hvernig okkur líður eins og t.d.  „Mér líkar ekki þegar þú gerir svona“. Við ættum frekar að tala um hegðun frekar en persónur ef við viljum gagnrýna.

bottom of page