top of page

Stefán Axel Jóhannsson

Einelti er ógeð

 

Í þessari grein ætla ég að ræða um einelti og hversu erfitt það getur verið fyrir krakka og líka fullorðna. Fólk skilgreinir einelti á mismunandi hátt. En það sem ég ætla að fjalla um er munurinn á milli stríðni og eineltis því að sumir vita ekki muninn. Það geta allir orðið fyrir einelti hvort sem það er fullorðinn eða barn.

 

Munurinn er mikill að mér finnst. Stríðni er athöfn eða hegðun sem er ekki ætlað að meiða eða niðurlægja. Hún er ekki endurtekinn heldur afmarkað tilfelli. Ef þú lendur í því að sama manneskjan er að stríða þér aftur og aftur með sama tilfelli er það ekki kallað neitt annað en einelti. En eins og ég sagði áðan þá eru sumir sem vilja kalla stríðni einelti. En málið er það að ef þér líður illa eftir stríðnina þá er það einelti og þetta er bara ótrúlega persónubundið hvað stríðni getur gengið langt áður en það verður einelti. Einelti er í raun eitt form af ofbeldi og einelti á sér oftast stað þar sem enginn er til að aðstoða mann. Það getur verið hópur af fólki eða einn aðili sem leggur í einelti og oft þegar það er hópur þá er það erfiðara fleiri á móti einum.

Mér finnst ef þú horfir uppá einelti og gerir ekkert þá ertu í raun að taka þátt í eineltinu. Ef þú verður vitni að einelti eða veist um einhvern sem er að lenda í einelti þá getur þú sagt frá til að hjálpa honum, það þarf oft svo lítið til að hjálpa fólki út úr einelti. Bara eitt lítið bros eða bara það að einhver vilji leika eða hjálpa þér er nóg til að einhverjum líði betur.

 

Ég þekki mörg tilfelli eineltis þar sem ég hef lent í því sjálfur og einnig fólk í minni fjölskyldu og það getur verið svo erfitt ef maður segir ekki strax einhverjum sem maður treystir frá því. Maður á alltaf að reyna að segja einhverjum frá sem gæti hjálpað manni. Ég gerði það til dæmis ekki alveg strax. Ég var einhvern veginn alltaf að reyna að finnast stríðnin sem ég varð fyrir jafn fyndin og þeim sem voru að stríða mér en mér leið alltaf bara verr og verr. Síðan sá fjölskyldan mín mikinn mun á mér og þá loksins sagði ég frá og þá fór af stað  ferli í skólanum sem og heima til að styrkja mig og láta mér líða betur. Þetta hætti í raun ekki en ég bara breyttist og hætti að taka þetta inn á mig. Maður getur ekki breytt öðru fólki maður verður bara að breyta og bæta sig sem persónu. En ég hugsa að þeir sem leggi í einelti líði bara mjög illa sjálfum eða þannig vil ég hugsa það. Svo veit ég um tilfelli þar sem fullorðinn var lagður í einelti í vinnunni sinni og var það orðið þannig að manneskjan vildi ekki mæta í vinnu þar sem yfirmaðurinn var svo vondur við hann.


Niðurstaðan í þessu öllu er sú að hver sem er getur lent í einelti. Við myndum öll vilja að einelti væri ekki til. En með aukinni fræðslu og kynningu á einelti og forvörnum þá getum við kannski komið í veg fyrir eitthvað af því. Ef við hjálpumst öll að að fylgjast með vinum okkar og kunningjum og reynum alltaf að hjálpa til ef við verðum vitni að einhverju þá komust við alltaf lengra og lengra í því að láta það minnka eða hætta alveg. Ég vil ekki leggja neinn í einelti og reyni mitt allra besta í að gera það ekki en við verðum öll að reyna okkar besta. Því ef einn lendir í einelti þá er það einum of mikið því einelti er ógeð og eitt form af ofbeldi. Hugsum alltaf vel um alla og tileinkum okkur það að koma fram við fólk eins og við myndum vilja að það kæmi fram við okkur.

bottom of page