top of page

Bergdís Bjarnadóttir

Einkunnagjöf í bókstöfum

 

Í byrjun skólaársins 2015-2016 var ákveðið að taka upp nýja einkunnagjöf í 10. bekk um land allt. Þessar einkunnir eru gefnar í bókstöfunum A, B+, B, C+, C og D og fáum við texta meðfylgjandi sem á að útskýra einkunnina. Ég er sjálf í 10. bekk í Sæmundarskóla og fæ því einkunnirnar mínar þetta árið á þessu formi.

 

Nemendur í 10. bekk á Íslandi virðast upplifa mikla ósanngirni bæði milli skóla og innan skólans. Í sumum skólum eru settir tölustafir á bakvið bókstafina svo nemendur geti borið saman og vita því nákvæma einkunn sína, í öðrum skólum eru gefnir bókstafir og umsögn meðfylgjandi og svo hef ég heyrt  að aðrir skólar gefi tölustafi yfir allt árið og færi svo einkunnirnar yfir í bókstafi undir lok skólaárs. Það ríkir því mikið ósamræmi milli skóla og eru nemendur ósáttir. En er þetta kerfi jafn ósanngjarnt og flestum finnst?

 

Ósanngirni í einkunnagjöf hefur alltaf verið til staðar, við höfum bara ekki áttað okkur jafn mikið á því fyrr en nú. Að fá 9 í einkunn merkir eitt í skóla  A og annað í skóla B. Af hverju spáum við svona mikið í þessum breytingum þegar þær eru í raun mun sniðugri og hentugri fyrir nemendur?

 

Í aðalnámskrá standa markmið sem nemendur ættu að vera búnir að ná undir lok 10. bekkjar. Það er erfitt að meta getu nemanda út frá nokkrum verkefnum og einhverjum prófum og því erfiðara að dæma hvort nemandi hafi náð tilsettum markmiðum. Hins vegar þegar bókstafaeinkunn er gefin er dæmt út frá hæfni og getu nemanda og getur nemandinn þá séð nákvæmlega hvað það er sem hann þarf að bæta til að ná hærri einkunn. En hvað þýða þessir bókstafir? Merkingar fyrir A, B, C, og D eru eftirfarandi:

 

A: Ég kem með mínar eigin hugmyndir, sjónarmið og stíl í hvað sem ég tek mér fyrir hendur. Ég þekki efnið mjög vel og get miðlað því áfram

 

B: Ég næ færninni sem stefnt er að og er tilbúinn til að halda áfram

 

C: Ég næ að nýta mér þekkinguna í kunnuglegum verkefnum og aðstæðum og þarf stundum aðstoð.

 

D: Ég er að læra og þarf aðstoð frá öðrum og meiri æfingu.

 

Þetta er alveg jafn nýtt fyrir kennurum og nemendum og ég held að flestir kennarar geri sitt besta til að fara eftir þessu. Sumir leggja að vísu mun meira á sig en aðrir, sem er auðvitað ekki sanngjarnt fyrir nemendur í sinnhvorum skólanum, og ég skil ósættið þar, en lífið er heldur ekkert alltaf sanngjarnt .


Ég legg til að við hættum að tala niðrandi og væla yfir því hvað nýja einkunnakerfið sé ömurlegt, sem við getum hvort sem er ekkert gert í og lítum á björtu hliðarnar á því vegna þess að þær eru mun fleiri.

bottom of page