top of page

Ágúst Heiðar

Ættu bardagaíþróttir að vera bannaðar?

 

Ég, eins og margir aðrir, heillast af bardagaíþróttum. Það særir mig á vissan hátt að það fyrsta sem fólk hugsar um þegar það heyrir orðið ,,bardagaíþrótt” er venjulega ofbeldi. Þessi hugsunarháttur er mjög vitlaus og gefur mjög ranga mynd af íþróttum af þessu tagi. Tökum karate sem dæmi, markmið þátttakenda á mótum er ekki að meiða andstæðinginn, heldur að beita líkama sínum rétt, sýna að þú stjórnir tækninni er þú framkvæmir og beitir hraða þínum til forskots. Bardagaíþróttir skiptist í tvo flokka, bardagaíþróttir og bardagalistir. Bardagaíþróttir eru íþróttir þar sem þú átt að yfirbuga andstæðing þinn með tækni þinni og styrk en bardagalistir er meiri ,,sýning”  og útlit bardaga skiptir máli. Flestar bardagaíþróttir tilheyra bardagalistum en þó eru nokkrar bardagaíþróttir til í dag eins og box.

Eftir árangur Gunnars Nelsons í MMA. eða mixed martial arts sem er í raun keppnisíþrótt þar sem flestar bardagaíþróttir eru nýttar í einu hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um hvort bardagaíþróttir hafa slæm áhrif á yngri áhorfendur þeirra, og hefur MMA meðal annars verið líkt við slagsmálum á skólalóðinni. Ef slagsmál á skólalóð myndi fela í sér vel æft og heimsklassa jiu-jitsu og karate þar sem keppendur kljást og annar gefst upp, læknisskoðanir fyrir og eftir bardaga og miklar reglur háklassa  dómara myndi ég sjá líkindi en annars sé ég engan mun. Foreldrar eiga einnig að bera ábyrgð á að kenna börnum sínum að þessar keppnir eru íþróttir og ekki leyfilegar á skólalóðinni eða öðrum sambærilegum stað.

10. mars 2014 birtist grein á stafræna fréttamiðlinum Vísir.is þar sem kom fram að Gunnar Nelson væri stórhættuleg fyrirmynd samkvæmt stofnuninni Barnaheill. Greinin segir meðal annars „Já, það er alveg rétt. Þar sem þetta er flokkað sem íþrótt og við lítum svo á að íþróttamenn séu góðar fyrirmyndir fyrir börn. En þarna er það sannarlega ekki þar sem þetta er klárlega mikið ofbeldi og börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi”. Þessi fullyrðing gefur ótrúlega ranga mynd af hvað bardagaíþróttir eru. Eins og ég hef sagt áður eru bardagaíþróttir ekki ofbeldi, heldur eins konar list. Einnig kemur fram að bardagaíþróttir séu hættulegar fyrir iðkendur þess. Sú fullyrðing er einfaldlega röng. Í fyrsta lagi eru þeir að alhæfa að allar bardagaíþróttir séu hættulegar jafnvel þó að í sumum bardagalistum kljáist iðkendur íþróttarinnar ekki saman heldur er tækni aðeins framkvæmd út í loftið eins og dans, og í öðru lagi hefur Gunnar Nelson sjálfur sagt að jafnvel þó íþróttin sé harðgerð og ekki fyrir alla er hún ekkert hættulegri en aðrar íþróttir. Sú fullyrðing er alveg rétt því meiðsli eru mikið algengari í íþróttum eins og fótbolta heldur en í bardagaíþróttum. Tökum dæmi: Daniel Sturridge, stjörnuleikmaður Liverpool á Englandi, hefur slasast 11 sinnum síðan 2008 eða verið meiddur í samanlagt 497 daga. Ég veit ekki um neinn bardagaíþróttamann sem hefur verið meiddur það lengi og er Daniel Sturridge eitt af mörgum dæmum um meiðslahrúgur í fótboltanum.

Íþróttamenn bardagaíþrótta eru oft mjög misskildir og eru taldir vera skapvondir og ofbeldisfullir. Sumt fólk býst meira að segja við því að bardagaíþróttamenn muni hiklaust lemja einhvern ef þeim lystir eða ef einhver biður þá um það. Þessi hugsunarháttur er ekkert annað en fordómar gagnvart góðum íþróttamönnum. Ég er bardagaíþróttamaður, ég er ekki skapvondur og það hefur aldrei hvarflað að mér að lemja einhvern. Ef bardagaíþróttamaður nýtir þá tækni er hann hefur lært í sínu félagi á einhverja manneskju utan æfingasvæðis síns er hann rekinn úr íþróttinni, nema ef kunnáttan er nýtt í sjálfsvörn. Þessi regla kemur í veg fyrir að ofbeldismenn ákveði að skerpa kunnáttu sína í áflogum og aðeins alvöru íþróttamenn geta stundað hana.

Bardagaíþróttir eru í heildina mjög góð íþrótt fyrir hvern sem er og stuðla þær að líkamlegri og andlegri heilsu. Þessar íþróttir bæta liðleika, styrk, þol og þrek og eru auðvitað einstaklega góð útrás. Nú þegar þú ert búinn að lesa textann spyr ég þig aftur, ættu bardagaíþróttir að vera bannaðar?

bottom of page